Almennt um Grænu skrefin

Hvað eru grænu skrefin?

Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi borgarinnar ásamt því að skapa fordæmi í því að minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins með kerfisbundnum hætti. Verkefnið hófst formlega í október 2011 og er innblásið frá umhverfisstjórnunarkerfi Harvard háskóla í Bandaríkjunum sem nefnist Green Office og er ætlað að minnka neikvæð umhverfisáhrif háskólans.

Allir vinnustaðir Reykjavíkurborgar eiga að vera þátttakendur í Grænum skrefum fyrir lok árs 2021 samkvæmt nýrri og endurskoðaðri Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarráði í byrjun árs 2021. Einnig eru Grænar áherslur í allri starfsemi Reykjavíkurborgar næstu árin sem sjá má í Græna planinu.

Fjögur skref – sjö umhverfisþættir

Umhverfisstjórnunarkerfið Græn skref byggist á fjölmörgum aðgerðum sem snerta 7 þætti sem hafa áhrif á umhverfið, og eru aðgerðirnar innleiddar í fjórum áföngum eða skrefum. Öllum vinnustöðum borgarinnar býðst að tileinka sér þessar aðgerðir og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna sinna og draga úr rekstrarkostnaði.

Vistvænn rekstur

Hjá Reykjavíkurborg starfa um 10.000 manns og er borgin einn af stærstu vinnustöðum landsins. Reksturinn er umfangsmikill og hefur umtalsverð umhverfisáhrif, bæði vegna athafna starfsmanna og vegna tengdrar þjónustu sem borgin veitir. Rekstri borgarinnar fylgir losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars frá bílum, meðhöndlun úrgangs og ýmsum verkframkvæmdum. Einnig hefur borgin óbein áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars í gegnum ákvarðanir sem snerta innkaup. Starfssemi Reykjavíkurborgar fylgir losun efna sem hafa áhrif á loftgæði, má þar til dæmis nefna við akstur bíla, malbikun og ýmislegt viðhald.

Með virkri umhverfisstjórnun og með kaupum á vistvænum vörum og þjónustu má skapa markað fyrir slíkar vörur og draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi borgarinnar.

Markmið verkefnisins

Markmið verkefnisins eru að:
  • Gera starfssemi Reykjavíkurborgar umhverfisvænni
  • Auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra
  • Draga úr kostnaði í rekstri Reykjavíkurborgar
  • Innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar
  • Vinnustaðir fái viðurkenningu fyrir metnað sinn í umhverfismálum
  • Vinnustaðir borgarinnar geti innleitt aðgerðir á mismunandi hátt eftir umfangi og eðli starfsseminnar
  • Aðgerðir Reykjavíkurborgar í umhverfismálum séu sýnilegar
  • Reykjavíkurborg verði fyrirmynd annarra í umhverfismálum

Samráðsnefnd

Verkefnið er unnið þvert á fagsvið borgarinnar og yfir verkefninu situr 10 manna samráðsnefnd. Samráðsnefndin vinnur að þróun verkefnisins og í samráðsnefndinni sitja:

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband