Flokkun – nánar

Hvernig á að flokka almennt

Listi þessi er tekinn af vefsíðunni Áttavitinn en breytt og bætt við eins og hentar fyrir Grænu skrefin.

  • Nytjahlutir; t.d. nothæfir og seljanlegir hlutir eins og borðbúnaður, leikföng, raftæki og húsgögn. Nytjahlutum er skilað í nytjagáma á endurvinnslustöðvum.
  • Föt og klæði; t.d. gluggatjöld, sængurver, teppi, koddar og fatnaður. Föt og klæði eru sett í poka og skilað í grenndargáma Rauða krossins eða á endurvinnslustöðvar. Rauði krossinn tekur við öllum textíl, einnig trosnuðum tuskum og götóttum sokkum.
  • Pappír og pappi; t.d. fernur, pítsukassar, dagblöð og auglýsingapóstur. Pappír og pappi fer í endurvinnslutunnu. Athugið að skola þarf fernur og allar matarleifar úr pítsakössum.
  • Gæðapappír; ss allur hvítur skrifstofupappír fer í sér tunnu samkvæmt flokkun Grænu skrefanna, sérstaklega ef hann er í miklu magni.
  • Plast; t.d. einnota plastumbúðir, dollur, bakkar og brúsar. Skola þarf allar matarleifar og plastið er sett í endurvinnslutunnu.
  • Flöskur og dósir; t.d. úr áli, plasti og gleri. Drykkjarumbúðum sem bera skilagjald er safnað sér og þeim síðan skilað til Endurvinnslunnar hf. Reglan er að ef hægt er að drekka drykkinn beint úr umbúðunum er skilagjald á þeim. Undantekningin eru mjólkurdrykkir, svo sem ískaffi, smúþí og jógúrtdrykkir. Einnig eru þykkni ekki með skilagjald. Heldur ekki Lýsi eða olíur ýmiss konar.
  • Málmar; t.d. niðursuðudósir, álpappír, álbakkar, málmlok af krukkum, sprittkertakoppar og rafmagnsvírar. Málmum er safnað sér og sett í endurvinnslutunnu eða farið með beint í Sorpu. Heimavið má setja málma lausa í svörtu tunnuna fyrir almennt sorp.
  • Gler og steinefni; t.d. speglar, flísar, glerkrukkur, múrsteinar, postulín og keramikmunir. Stærri hlutum er skilað beint í Sorpu en hægt er að skila glerkrukkum, gler- og postulínsbrotum í glergáma á Grenndarstöðvum. Safnið þessu saman á vinnustaðnum.
  • Lífrænn úrgangur; t.d.matarleifar, afgangar, eldhúspappír, tepokar, kaffikorgur, er safnað í sér tunnu fyrir lífrænan úrgang. Íslenska gámafélagið vinnur moltu úr því.
  • Spilliefni og raftæki; t.d. rafhlöður, spreybrúsar, málning, olíuefni, ljósaperur og ónýt raftæki. Spilliefni og raftæki fara í spilliefna- og raftækjagáma á endurvinnslustöðum. Hægt er að fá litlar pappaöskjur til að safna rafhlöðum í.

Vafaatriðin

  • Bökunarpappír fer í almennt rusl. Þó er sjálfsagt að endurnýta hann ef hann er ekki mjög skítugur.
  • Sellófan er eitt af erfiðu hlutunum. Ekta sellófan, sem er búið til úr fjölsykrum (þ.e. plöntum) rifnar mjög auðveldlega og leysist upp undir heitu vatni. Það á ekki að flokkast með plasti heldur fara í almennt rusl. En svo er til sellófan sem er plastblandað og engan veginn hægt að sjá muninn. Þá er hægt að gera rif og uppleysiprófið til að finna út úr því. Ef það er plastblandað sellófan þá ætti það að fara í plastendurvinnslu.
  • Gluggaumslög má setja í pappa og með gæðapappír.
  • Skvísur (barnamatur, chiagrautar, heilsudrykkir) eru vandræðaumbúðir vegna þess að þær eru úr mörgum samsettum efnum. Meginreglan er að ef meirihluti efnisins er plast fara umbúðirnar í plasttunnu. Mun að skola innanúr fyrst (klippa upp til að skola)
  • Plastumbúðir utanaf grillkjöti. Ef ekki er hægt að skola fituna nægilega vel af á að henda þeim í almennt rusl. Olían í marineringunni skemmir endurvinnslumöguleikana.
  • Lífplast. Erfitt er að þekkja lífplast frá venjulegu plasti sé það ekki sérstaklega merkt. Ef merkingin “compostable” er á umbúðunum má setja lífplastið með lífrænu. Ef merkingin “biodegradable” eða “plant-based” er á umbúðunum fer það í almennt rusl. Lífplast fer ekki með plasti í endurvinnslu.
  • DVD og geisladiskar mega fara í plast en VHS spólur fara í almennan úrgang.
  • Rakblöð úr plasti og stáli mega fara í plast, en ef hægt er að aðskilja blöðin frá þá fara þau með málmi.
  • Tómum lyfjaspjöldum og lyfjaafgöngum á að skila í apótek í glærum poka.
  • Naglalökk og ilmvötn flokkast sem spilliefni.
  • Pumpur á sápubrúsum og sprittbrúsum eru oftast flokkaðar sem plast.
  • Pokar undan örbylgjupoppi fara í almennt rusl. Þetta á við um allar umbúðir sem eru löðrandi í fitu.
  • Kveikjara á að setja í spilliefni sé gas í þeim. Annars eru þeir flokkaðir í málm eða plast; eftir því sem við á.
  • Prenthylki og tónerar flokkast sem spilliefni en plast ef þau eru tóm.
  • Gleraugu er hægt að fara með í nytjagám Góða hirðisins ef þau eru nothæf. Ef ekki, þá flokkast þau eftir þeim efnivið sem er mest af í þeim, t.d. plast, gler eða málmur.
  • Kassakvittanir fara í pappír.
  • Sviss miss og pikknikk dunkar. Lokið fer í plast, helst þarf að skera botninn undan og setja í málm og þá er hægt að setja dunkinn sjálfan í pappa. Skola fyrst.
  • Pennar. Einnota pennar, sem ekki er hægt að taka í sundur, fara í almennt rusl. Ef hægt er að taka þá vel í sundur þá fer gormurinn í málm, hylkið í plast og blekstauturinn með kúlunni fremst fer í spilliefni.
  • Frauðplast. Er óendurvinnanlegt efni og fer alltaf í almennt, ekki í plast.
  • Pappír sem búið er að mála á eða teikna má fara með öðrum pappír í pappírsgám.
  • Leir. Þornaður leir fer í almennt sorp. Heimatilbúinn leir gæti verið lífrænn ef þið vitið innihaldsefnin og að þau eru æt.
  • Límtúpur og límstifti eiga heima í spilliefni.
  • Allar pappírsþurrkur af salernum fara með almennu sorpi, ekki í pappírsendurvinnslu.

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband