Ítarefni – umhverfismerki

Hvað eru umhverfismerki?

Umhverfisstjórnun / Umhverfisvottun
Umhverfisstjórnun er skipulagt umhverfisstarf sem miðar að því að hafa stjórn á umhverfisáhrifum starfseminnar og vinna markvisst að stöðugum umbótum í umhverfisstarfinu í samræmi við umhverfisstefnu. Umhverfisstjórnunarkerfi er sá hluti heildarstjórnunarkerfisins sem nær yfir stjórnskipulag, áætlanagerð, ábyrgðarskiptingu, starfshætti, verklagsreglur, ferli og aðföng sem nauðsynleg eru til að þróa, koma á, framfylgja, rýna og viðhalda umhverfisstefnunni. Umhverfisstjórnunarkerfi er með öðrum orðum safn lýsinga og leiðarvísa um umhverfisstarf innan fyrirtækis eða stofnunar. Því er ætlað að fella áherslu á umhverfismál inn í alla þætti starfseminnar á kerfisbundinn hátt.

Umhverfisstjórnunarkerfi sem byggt er upp samkvæmt ákveðnum stöðlum getur fengið vottun óháðs aðila. Dæmi um viðurkennda alþjóðlega staðla eru ISO 14001 og EMAS. Vottað umhverfisstjórnunarkerfi er sönnun þess að starfsemi uppfylli tilteknar kröfur um markvissa stjórnun umhverfisþátta og stöðugar umbætur á frammistöðu í umhverfismálum í samræmi við umhverfisstefnu.

Umhverfisvottun er vottun óháðs aðila um að kröfur áreiðanlegra umhverfismerkja eða umhverfisstjórnunarkerfa séu uppfylltar.


Umhverfismerki

Umhverfismerkjum er ætlað að auðvelda neytendum að finna umhverfisvæna vöru og þjónustu. Merkin eiga að tryggja að varan hafi staðist strangar umhverfiskröfur sem geta tekið t.d. til framleiðsluferils, efnainnihalds, notkunar vörunnar, úrgangsmyndunar og niðurbrots, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfismerki getur verið í formi yfirlýsingar, tákns, eða myndar á vöru eða merkingu umbúða, í upplýsingum sem fylgja vörunni, í tæknilegum upplýsingum, í auglýsingum eða opinberri kynningu, o.s.frv.

Áreiðanleg umhverfismerki eiga það sameiginlegt að þau fela í sér ákveðnar lágmarkskröfur um umhverfisframmistöðu vöru eða þjónustu, og oft einnig um gæði og heilnæmi þeirra. Kröfurnar geta annað hvort náð til alls lífsferils vörunnar frá framleiðslu til förgunar eða til einstakra umhverfisþátta vörunnar t.d. orkunotkunar. Einnig eiga áreiðanleg umhverfismerki það sameiginlegt að óháður aðili hefur vottað að kröfur umhverfismerkisins séu uppfylltar.

Umhverfismerki er trygging neytenda fyrir því að varan eða þjónustan skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta.

Þrjár gerðir umhverfismerkja
Umhverfismerkjum hefur verið skipt í 3 flokka. Þegar rætt er um umhverfismerki í daglegu tali er yfirleitt átt við gerð 1, en vegna mikils fjölda merkja á markaðnum gætir þó oft tilhneigingar til að rugla saman merkjum af gerð 1 og gerð 2.

  Gerð 1:

  Merki frá óháðum þriðja aðila

  Gerð 2:

  Merki frá vöruframleiðanda

  Gerð 3:

  Umhverfisyfirlýsingar, vottaðar af þriðja aðila

Framleiðendur sækja um merki af þessu tagi til hins óháða aðila, og þurfa að uppfylla tilteknar viðmiðunarkröfur til að fá leyfi til að nota merkið. Viðmiðunarkröfurnar taka til margra þátta, taka mið af vistferli viðkomandi vöru eða þjónustu og eru endurskoðaðar reglulega. Merkið felur í sér yfirlýsingu framleiðanda um umhverfislegt ágæti á eigin vöru eða þjónustu. Þessar yfirlýsingar veita magnbundar upplýsingar um tiltekna umhverfisþætti vörunnar, en láta neytendum það eftir að ákveða hvaða vara sé betri en önnur frá umhverfissjónarmiði. Að sama skapi staðfestir vottunin aðeins að upplýsingarnar séu réttar, en felur ekki í sér vísbendingu um umhverfislegt ágæti.

Umhverfismerki neysluvara

Umhverfismerki hafa ýmsa merkingu. Sum merki varða eingöngu umbúðir, önnur vöruna og framleiðslu hennar og enn önnur notkun.

Neðangreind merki má finna á ýmsum almennum neysluvörum, s.s. almennum heimilisvörum, hreinlætisvörum, byggingarvörum og húsbúnaði, rekstrarvörum o.fl. Merkin eiga það sameiginlegt að uppfylla kröfur staðalsins ISO 14024 (Umhverfismerki af gerð 1) sem felur það m.a. í sér að þau taka tillit til umhverfisþátta á öllum lífsferli viðkomandi vöru eða þjónustu, allt frá vinnslu hráefna til endanlegrar förgunar.

SVANURINN

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Í dag fást vörutegundir merktar Svaninum í um 70 mismunandi vöruflokkum, s.s. hreinsiefni, húsgögn, byggingavörur, rafhlöður og pappír en einnig er hægt að Svansmerkja starfsemi fyrirtækja, s.s. prentþjónustu, hótel og stórmarkaði.

Svanurinn er lífsferilsmerki sem þýðir að í allri viðmiðaþróun er leitast við að hanna kröfur sem taka á öllum lífsferli vörunnar eða þjónustunnar sem um ræðir.

EVRÓPUBLÓMIÐ

Blómið er opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins. Blómið gefur neytendum, opinberum jafnt sem innkaupaaðilum einkafyrirtækja í Evrópu færi á að kaupa sannanlega visthæfar vörur. Evrópublómið tekur tillit til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu. Í dag fást yfir 36.000 vörutegundir og þjónusta merktar Blóminu á evrópska efnahagssvæðinu. Meðal þeirra eru tölvur, jarðvegsbætir, málning og lakk, textílefni, ljósaperur og skór.

BLÁI ENGILLINN

Blái engillinn er opinbert umhverfismerki Þýskalands og eitt elsta umhverfismerki í heimi. Vörur og þjónusta í tæplega 200 vöruflokkum fást merktar með Bláa englinum sem tekur tillit til alls lífsferils vörunnar. Þar á meðal eru allflestar gerðir neysluvara, allt frá pappírsvörum og hreinlætisefnum til húsbúnaðar, gólfefna og tölvu- og skrifstofubúnaðar.

FÁLKINN – Bra Miljöval

Fálkinn er umhverfismerki sænsku náttúruverndarsamtakanna SNF sem sett hafa umhverfiskröfur fyrir ýmsa vöruflokka, s.s. hreinsivörur, vefnaðarvörur, orkuframleiðslu og samgöngur. Í umhverfisviðmiðum Fálkans eru settar kröfur um að við framleiðslu megi ekki notast við efni sem eru þrávirk eða skaðleg umhverfinu. Einnig eru settar kröfur um orkunotkun auk þess sem það verður að vera hægt að endurvinna vöruna eða að niðurbrot hennar hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.

GRÆNA INNSIGLIÐ

Græna innsiglið er umhverfismerki óháðra bandarískra samtaka sem stuðla að framleiðslu, sölu og innkaupum á umhverfisvænni vöru og þjónustu. Allt frá kaffisíum til loftkælikerfa geta fengið umhverfismerkið.

LÍFRÆN RÆKTUN

MERKI EVRÓPUSAMBANDSINS

Með þessu merki Evrópusambandsins um lífræna ræktun skal taka tillit til umhverfis og velferð dýra. Merkið er á vörum sem framleiddar eru í Evrópusambandsríkjum.
Evrópusambandið gerir kröfu um að yfirvöld í viðkomandi ríki hafi eftirlit með framleiðendum og vörum. Eftirlitinu er ætlað að tryggja að vörurnar séu ósviknar og að kröfum til framleiðsluaðferða sé fylgt. Í það minnsta einu sinni á ári láta yfirvöld kanna hvort framleiðendur standist kröfur um lífræna rætkun.

TÚN

Tún er íslensk faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Tún er þróunarfélag í þágu almannahagsmuna og vinnur að nýsköpun matvælaframleiðslu og náttúrunytja í samræmi við alþjóðlega staðla um tillitsemi við lífríki og náttúru. Siðfræði sjálfbærrar þróunar og heilbrigðis allrar lífkeðjunnar eru megin leiðarljós í þjónustu Túns.

KRAV

KRAV merkið er opinbert sænskt merki sem vottar og hefur eftirlit með lífrænni ræktun. Merkið tryggir að við framleiðslu er tekið tillit til umhverfisþátta, velferð dýra, samfélagslegrar ábyrgðar og hollustu.
Til að fá merkið fyrir plönturækt þarf ræktunin í það minnsta að samræmast reglum EB um lífrænan landbúnað.

ÖNNUR MERKI

FOREST STEWARDSHIP COUNCIL

FSC-merkið er notað á timbur og vörur sem unnar eru úr viði, s.s. húsgögn og pappír. Merkið er til marks um að viðurinn sem varan er unnin úr sé að uppruna úr skógum sem stjórnað er með sjálfbærum hætti.

PEFC – MERKIÐ

Program for the Endorsement of Forest Certification Schemes. PEFC-merkið er svipað FSC-merkinu og staðfestir að hráefnið eigi uppruna í sjálfbærri skógrækt í samræmi við reglur þessara stofnana, sem í aðalatriðum gera strangar kröfur til uppruna og rekjanleika efnisins.

TCO MERKIÐ

Program for the Endorsement of Forest Certification Schemes. PEFC-merkið er svipað FSC-merkinu og staðfestir að hráefnið eigi uppruna í sjálfbærri skógrækt í samræmi við reglur þessara stofnana, sem í aðalatriðum gera strangar kröfur til uppruna og rekjanleika efnisins.

ENERGY STAR

Energy Star er bandarískt orkumerki sem er rekið af bandarísku umhverfisstofnuninni (EPA) og Orkustofnun Bandaríkjanna (DoE). Merkið, Energy Star, er til marks um ákveðin skilyrði varðandi orkunýtingu rafmagnstækja, s.s. tölvubúnaðar og hvítvara. Það segir að vara sé sérlega sparneytin á rafmagn en merkið gerir enga kröfu um hráefnaval, notkun kemískra efna eða um orkusparnað í framleiðslu. 

EVRÓPSKA ORKUMERKIÐ

Evrópska orkumerkið metur orkunýtni raftækja, frá mestri orkunýtni (A++) til minnstrar (G). Samkvæmt evrópskum lögum á merkið að vera á öllum ísskápum, frystiskápum- og kistum, þurrkurum, þvottavélum, uppþvottavélum, ljósaperupakkningum o.fl. 

SANNGIRNISVOTTUN

Sanngirnismerkið (stundum er einnig talað um siðgæðisvottun) staðfestir að viðkomandi vara uppfyllir kröfur alþjóðlegu FLO samtakanna (Fairtrade Labelling Organisations International). Sanngirnismerki er ekki umhverfismerki,en sanngirnismerki taka til félagslegra þátta í viðskiptum með vörur sem eiga uppruna sinn í þróunarlöndunum og styðja þannig við sjálfbæra þróun samfélagsins.

ENDURVINNSLUMERKI

Endurvinnslumerkið er alþjóðlegt. Það táknar að umbúðirnar séu endurvinnsluhæfar eða séu a.m.k. að hluta til úr endurunnum efnum. En merkið gefur enga tryggingu fyrir því að sjálf varan sé endurvinnanleg eða að framleiðsluferlið sé umhverfisvænt.

DER GRÜNE PUNKT

Græni punkturinn er þýskt endurvinnslumerki. Þetta merki segir ekki til um hvort varan hafi áhrif á umhverfið. Græni punkturinn þýðir að umbúðir viðkomandi vöru séu endurvinnanlegar og að búið sé að reikna endurvinnslugjald umbúða inn í verð vörunnar. Þetta merki er ekki notað á vörur sem framleiddar eru á Norðurlöndum.

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband