Ítarefni – samgöngur

Hvernig hafa Grænu skrefin áhrif í samgöngum?

Grænt skref í samgöngum er tækifæri fyrir Reykjavíkurborg til að sýna gott fordæmi í samgöngumálum, draga úr mengun og stuðla að betri borg. Hjólreiðar, ganga, almenningssamgöngur og notkun vistvænna bifreiða er meðal þess sem fellur undir vistvænar samgöngur. Grænt skref í samgöngum getur haft jákvæð áhrif á rekstur stofnunarinnar, fjárhag og heilsu starfsmanna auk þess að fela í sér samfélagslegan ávinning.

Hjólreiðar og ganga

Reykjavíkurborg hyggst auka hlutfall vistvænna ferða vegna starfsemi sinnar árlega. Vinnuveitendur hafa ýmis tól og tæki til að hvetja til aukinna hjólreiða og göngu vegna erinda starfsmanna. Starfsfólki skulu standa vinnuhjól til boða vegna styttri vinnutengdra ferða sem og persónulegra erinda ef á þarf að halda. Vinnustaðurinn styrkir kaup á eigin reiðhjólahjálmi sé þess óskað. Ef starfsmenn koma á hjóli til vinnu er þeim þó heimilt að nota bíla á vegum vinnustaðarins ef nauðsyn krefur vegna persónulegra erinda eða panta leigubíl á kostnað vinnuveitanda. Reykjavíkurborg býður starfsfólki sínu að gera samgöngusamning en þannig fá starfsmenn sem notast við vistvænan samgöngumáta til og frá vinnu, a.m.k. í 80% tilvika á viku, launauppbót. Aðstaða fyrir hjólandi og gangandi starfsfólk skal vera til fyrirmyndar og hjólagrindur við vinnustaði og búningsaðstaða eru mikilvægir liðir í að framfylgja því. Hjólað í vinnuna er heilsu- og hvatningarverkefni á vegum almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Megin markmið átaksins er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Strætó

Á heimasíðu Strætó er að finna allar helstu upplýsingar um leiðakerfi og gjaldskrár. Tilvalið er að hengja upp kort á kaffistofu og á innri vef, þar sem sýndar eru þær leiðir sem liggja að vinnustaðnum. Einnig skal bent á hvar hægt er að nálgast strætómiða. Stofnunin getur einfaldað aðgengi að strætó verulega með því að kaupa miðabúnt og selja starfsfólki sem á þarf að halda. Starfsmaður sem nýtir almenningssamgöngur Strætó bs. vegna ferða til og frá vinnu á ennfremur kost á því að sækja um samgöngukort Strætó. Þá er árskort keypt á lægra verði og gerir starfsmaðurinn samgöngusamning við sinn vinnustað til þess að öðlast rétt á því. Starfsmönnum skal bent á möguleikann að taka hjólið með sér í strætó (gæti verið erfitt á háannatíma) eða samtvinna þessa ferðamáta á annan hátt.

Visthæfir bílar

Reykjavíkurborg skilgreinir visthæfa bíla eftir eldsneytiseyðslu og eldsneytisgerð. Eitt meginmarkmiða Grænna skrefa í samgöngum er að bæta árlega hlut vistvænna farartækja í eigu borgarinnar. Þegar bílakaup eiga sér stað skulu þessar skilgreiningar hafðar í huga og uppfylltar ef möguleikinn er fyrir hendi. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar er hægt að sjá skilgreiningu á visthæfi bíla.

Samnýting ferða

Kjörið er að vera samferða vinnufélögum frá og til vinnu eða í vinntengdum ferðum.

Leigubílar og hópbílar

Ef leigubílar eru notaðir skal ávallt valinn leigubíll sem uppfyllir skilyrði borgarinnar um visthæfi.
Ef hópbílar eru notaðir skal ávallt velja hópbíla sem uppfylla skilyrði borgarinnar um visthæfi og/eða hafa umhverfisvottun.

Lengri ferðalög

Þegar starfsmaður Reykjavíkurborgar fer fljúgandi vegna vinnutengdra erinda er hægt að kolefnisjafna ferðina ýmist hjá Kolviði eða Votlendissjóði. Kolefnisjöfnun miðar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Takmarka ætti millilendingar í flugi og best er að velja flug þar sem hægt er að fljúga beint. Þar sem lestarsamgöngur standa til boða skulu þær valdar vegna minni umhverfisáhrifa en ef bílaleigubíll verður fyrir valinu skal hann valinn samkvæmt fyrrnefndum skilyrðum borgarinnar um visthæfi. Lengri ferðir starfsmanna skulu ávallt skipulagðar þannig að valdi sem minnstum umhverfisáhrifum bæði á lofti sem á jörðu niðri. Í grænu bókhaldi Grænna skrefa er hægt að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að reikna út losun vegna flugferða.

Önnur heilræði

  • Notkun fjarfundabúnaðar er góð leið til að fækka ferðum á milli staða og draga þannig úr mengun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
  • Bílastæði við vinnustaði hafa gríðarlega mikil áhrif á val á samgöngumáta og til að uppfylla markmið Reykjavíkur um að draga úr umferð á vegum borgarinnar eru aðgerðir í bílastæðamálum, svo sem bílastæðagjöld og fækkun bílastæða, ákjósanlegar til að ná árangri.
  • Vistakstur sameinar orku- og peningasparnað, minni mengun og aukið umferðaröryggi. Sniðugt væri að fara á námskeið.
  • Ekki skilja bílinn eftir í lausagangi.
  • Gott að tileinka sér að aka alltaf á jöfnum hraða, það mengar meira að vera sífellt að stíga á bremsurnar og taka af stað. Mesta orkunotkunin er þegar bíllinn er að setja kraft í að auka hraðann úr nánast kyrrstöðu. Þar að auki eru umferðarljósin stillt þannig að ökumenn geti alltaf náð grænu ljósi aki þeir ekki hraðar en á 50-60km jöfnum hraða.
  • Ganga frekar en að keyra styttri vegalengdir. Eitt af lýðheilsumarkmiðum þjóðarinnar er að auðvelda fólki að ganga í sínu nærumhverfi. Aðstaðan hefur batnað síðustu ár en við leggjum einnig okkar af mörkum með því að minnka bílaumferð og greiða þannig leið fyrir gangandi. Því fleiri sem ganga, því minni bílaumferð og þá verður sjálfkrafa öruggara og skemmtilegra að ganga. Hugum einnig að umhverfi barnanna í þessu sambandi.
  • Leggja bílnum lengra frá áfangastað og ganga (þeir sem hafa til þess getu) í stað þess að hringsóla lengi í leit að bílastæði þegar það er mikil umferð. Bíll í hægagangi mengar mikið og dýrmætur tími fer oft í það að leita lengi að bílastæði nógu nálægt.
  • Er rafbíll eða rafhjól til staðar á vinnustaðnum en lítið notað? Hvernig væri að hafa einn dag í prufukeyrslu fyrir alla starfsmenn sem vilja? Það eykur líkurnar á því að þessi samgöngumáti verði notaður þegar fólk hefur losnað við feimnina að prófa í fyrsta skipti.

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband