Gátlisti_skref 1

Rafmagn og húshitun

 1. Raftæki á borð við tölvur og prentara eru stillt þannig að tækin fara í sparnaðarstillingu (standby) þegar þau eru ekki í notkun.
 2. Við veljum sparnaðarstillingu á uppþvotta- og þvottavélum og forðumst að gangsetja hálffullar vélar.
 3. Við slökkvum á öllum ljósum í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós í lok dags. Sérstaklega er hugað að fundarherbergjum, geymslum og þar sem dagsbirtu nýtur við.
 4. Við höfum komið fyrir áminningarmiðum við rofa og valdar útgönguleiðir þar sem minnt er á að slökkva ljós í lok dags og á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun.
 5. Merkingar eru við lyftur þar sem starfsmenn og gestir eru hvattir til að nota stiga í stað lyftu.

Flokkun og minni sóun

 1. Við flokkum að lágmarki í 5 úrgangsflokka á kaffistofum, mötuneytum og annars staðar þar sem úrgangur fellur til (t.d. plast, pappa, almennt, málma og lífrænt, eða bylgjupappa). Öll ílát eru vel merkt með viðkomandi úrgangsflokki og starfsmenn eru vel upplýstir um flokkun og endurvinnslu.
 2. Við flokkum spilliefni eins og lög og reglur kveða á um, s.s. rafhlöður, prenthylki, málningarafganga, flúrperur og skilum til ábyrgrar förgunar.
 3. Við prentum báðum megin á blöð þegar það er mögulegt. Prentun á báðar hliðar og í svart-hvítu ætti að vera sjálfgild stilling á tölvum starfsmanna.
 4. Við endurnotum pappír sem prentað er á öðrum megin. Við prentara er ílát þar sem slíkum pappír er safnað saman og hann t.d. nýttur sem minnisblöð.
 5. Við notum margnota umslög fyrir innanhúspóst og hvetjum til notkunar þeirra í stað einnota umslaga.
 6. Við útgáfu kynningarefnis og annars efnis bjóðum við ávallt upp á rafræna útgáfu sem lesendur geta valið í stað pappírsútgáfu.

Viðburðir og fundir

 1. Við bjóðum upp á kranavatn en ekki vatn í einnota drykkjarumbúðum.
 2. Við hvetjum þátttakendur til að huga að umhverfinu og nýta sér vistvæna ferðamáta til og frá fundum og viðburðum, t.d. með neðanmálsgrein í tölvupósti.
 3. Við kaupum ekki einnota drykkjarmál og borðbúnað, ef ekki er komist hjá því eru notaðar umhverfismerktar eða niðurbrjótanlegar vörur (compostable). Bent er á borðbúnaðarleigu fyrir stærri viðburði.

Samgöngur

 1. Fyrir utan vinnustaðinn eru hjólastæði fyrir starfsmenn og gesti.
 2. Starfsfólk okkar getur nálgast aðgöngukort (Klappkort) fyrir strætó á vinnustaðnum vegna vinnutengdra ferða.
 3. Við höfum hvatt starfsfólk okkar til að nýta sér umhverfisvænni ferðamáta til og frá vinnu með því að bjóða upp á samgöngusamninga og kynna reglulega kosti þeirra.
 4. Vinnustaðurinn tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna eða Lífshlaupinu til að ýta undir virka ferðamáta.

Eldhús og kaffistofur

 1. Á kaffistofum og í mötuneyti eru eingöngu notuð margnota borðbúnaður og eldhúsáhöld.
 2. Vinnustaðurinn beitir sér fyrir því að draga úr notkun einnota burðarpoka og eru margnota burðarpokar fyrir útréttingar starfsmanna í boði á áberandi, vel merktum stað.
 3. Við beitum okkur fyrir því að draga úr matarsóun og höfum kallað eftir ábendingum frá starfsmönnum um hvað megi betur fara í baráttunni gegn matarsóun á vinnustaðnum.

Innkaup

 1. Við íhugum vel þörfina áður en við kaupum inn t.d. hvort nýta megi betur, samnýta, fresta innkaupum eða gera við.
 2. Við kaupum orkusparandi raftæki samkvæmt orkuflokkum Evrópusambandsins.
 3. Við kaupum einungis umhverfisvottaðan prentpappír samkvæmt rammasamningum Reykjavíkurborgar og þykkt pappírs sem við notum til prentunar og ljósritunar er 80 g/m2 eða minni.
 4. Við kaupum einungis hreinlætis- og ræstivörur sem eru umhverfisvottaðar (bera umhverfismerki).
 5. Við kaup á efnavöru (s.s. málningu, lím, lakk og annan efnivið) forðumst við að velja efni sem eru hættuleg umhverfinu (bera varúðarmerkingar)
 6. Allir innkaupaaðilar á vinnustaðnum hafa kynnt sér vistvæn innkaup og nýtt upplýsingar af heimasíðu Grænna skrefa til leiðbeininga.

Miðlun og stjórnun

 1. Við höfum skipað umhverfisteymi sem sér til þess að aðgerðir Grænna skrefa nái fram að ganga og svo tengilið sem sér um samskipti við verkefnisstjórn Grænna skrefa.
 2. Við höfum kynnt Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar, heimasíðu Grænna skrefa og þátttöku vinnustaðarins fyrir öllu starfsfólki.
 3. Starfsmenn okkar eru hvattir til að líka við síðu Grænna skrefa á Facebook og á Workplace, sem er einnig umræðuvettvangur.
 4. Við höfum fundað með starfsmönnum um framgang verkefnisins og safnað saman ábendingum um hvað megi betur fara í umhverfismálum á vinnustaðnum. Stjórnendur hafa verið upplýstir um ábendingar.
 5. Við höfum sett upp áminningarlímmiða sem tengjast aðgerðunum í skrefi 1.

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband