Heilræði

 • Almenningssamgöngur
  Kynntu þér hvort Strætó getur ekki komið þér þangað sem þú ert að fara á hagkvæman og skjótan hátt.
 • Án nagladekkja
  Reglulega má rekja háan styrk svifryks í andrúmslofti til notkunar nagladekkja. Í dag býðst úrval af ónegldum en góðum vetrardekkjum og því má auðveldlega komast hjá því að bílar í eigu fyrirtækisins séu á nagladekkjum.
 • Endurunnar og umhverfismerktar vörur
  Margar vörur innihalda endurunnar afurðir, með því að velja fremur slíkar vörur hvetur þú til endurvinnslu. Umhverfismerktar vörur eru einnig í boði í mörgum verslunum.
 • Flokkun úrgangs
  Hefur í för með sér minni kostnað og álag á umhverfið. Umhverfisstarf fyrirtækja hefur oft byrjað á flokkun úrgangs.
 • Fækka ferðum
  Veltu fyrir þér áður en þú leggur af stað á bíl hvort mögulegt sé að sleppa eða stytta ferðina eða nota annan samgöngumáta eins og t.d. að ganga eða hjóla.
 • Fækka ferðum
  Hægt er að nýta upplýsingatækni til að fækka ónauðsynlegum ferðum og spara ferðakostnað og tíma starfsmanna, meðal annars með góðum fundarsíma, fjarfundabúnaði eða tölvupósti.
 • Ganga
  Kannanir hafa sýnt að um þriðjungur ferða Reykvíkinga er styttri en 1 km og á um 15 mín má ganga þá vegalengd. Með því að ganga rösklega 30 mín á dag getur þú bætt heilsuna.
 • Hengja upp þvottinn
  Þurrkarar nota mikið rafmagn og slíta þvottinum meira.
 • Hvað er úrgangur?
  Öll neysla veldur úrgangi en úrgangur er ekkert annað en afgangshráefni, eitthvað sem við getum ekki nýtt eða sem við kjósum að nota ekki.
 • Jarðgerð
  Með því að jarðgera matarleifar á réttan hátt og annað sem fellur til af lífrænum úrgangi í garðinum og á heimilinu getur þú dregið úr urðun og fengið um leið góðan lífrænan áburð.
 • Kaup á orkunýtnum raftækjum
  Með því að kaupa orkunýtin heimilistæki sparast rafmagn. Söluaðilum raftækja á Íslandi ber skylda til að merkja ísskápa, frystikistur- og skápa, þvottavélar, uppþvottavélar, eldavélar og þurrkara eftir því hversu mikla orkunýtni þau hafa. Raftækin eru merkt A++ til G þar sem A++ hefur besta nýtni en G slakasta.
 • Kolefnisjöfnun
  Vinna má á móti óhjákvæmilegri kolefnislosun með kolefnisjöfnun. Sérstök verkefni snúast um að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti. Skoðaðu hvað þú finnur á netinu um kolefnisjöfnun.
 • Kröfur til birgja
  Fyrirtæki geta gert kröfur um að flutningafyrirtæki, bílaleigur og leigubílar sem fyrirtækið skiptir við hafi samgöngustefnu og/eða bjóði bíla með lágu útblásturgildi, sem knúnir eru vistvænum orkugjöfum og að orkunýtni bíla sé í fyrirrúmi.
 • Lækka hita
  Lækkaðu eða slökktu hita á ofnum yfir sumartímann og þegar þú ert í burtu. Með hverri gráðu sparast orka.
 • Meira grænmeti
  Framleiðslu kjöts og mjólkurafurða fylgir mun meiri orku- og vatnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda en við ræktun grænmetis. Með því að sleppa því að neyta kjöts í a.m.k. einn dag í viku dregur þú úr álagi á náttúruauðlindir.
 • Minni umbúðir
  Veldu vörur sem hafa viðaminni umbúðir en aðrar og vörur í umbúðum sem auðvelt er að flokka og skila til endurvinnslu. Með því skapar þú sem neytandi eftirspurn eftir slíkum vörum.
 • Minni úrgangur
  Við flokkun og skil til endurvinnslu verður úrgangur sem fer í svörtu heimilistunnuna minni. Hægt er að lækka sorphirðugjald heimilisins með því að fækka svörtum sorptunnum og/eða nýta kosti Grænu tunnu Reykjavíkurborgar. Pantaðu breytta hirðu á sorphirda@reykjavik.is.
 • Nagladekk valda svifryki
  Áætlað hefur verið að fólksbíll á nagladekkjum spæni upp hálfu tonni af malbiki á ári og þyrli upp allt að 10 kg af svifryki. Veldu ónegld dekk þegar þú kaupir dekk undir bílinn þinn.
 • Notkun margnota hluta
  Einnota hlutir, eins og bollar, hnífapör og diskar, auka auðlindanotkun og þörf fyrir flutninga auk þess sem meiri úrgangur fer til urðunar.
 • Nýtni
  Hér áður var nýtni svo mikil að engu mátti henda sem að gagni gat komið. Nýttu vel það sem keypt hefur verið, það er gott fyrir budduna og umhverfið.
 • Nægjusemi
  Skoðaðu vandlega hvort þörf er fyrir viðkomandi vöru áður en hún er keypt.
 • Orkusparnaður
  Það að velja orkunýtin rafmagnstæki og stilla skrifstofutæki á sparnaðarham sparar bæði orku og peninga.
 • Samkeyrsla
  Það getur oft verið skemmtilegra að ferðast með öðrum í bíl auk þess sem það gefur tækifæri til að deila kostnaði vegna akstursins. Þú getur kannað hvort vinnufélagar þínir eiga heima í nágrenni við þig og stungið upp á að þið keyrið saman í vinnuna.
 • Slökkva á raftækjum
  Raftæki í biðstöðu (standby) eins og til dæmis sjónvörp geta eytt um 40% af þeirri orku sem notuð er þegar kveikt er á þeim. Gott er að koma fyrir millistykkjum þar sem mörg raftæki eru sem hægt er að slökkva á með einum takka.
 • Slökkva ljós
  Þegar dagsbirtu nýtur má auðveldlega spara ljósanotkun. Ljós í mannlausum herbergjum er sóun á orku og peningum.
 • Sparperur
  Þær nota allt að 80% minna rafmagn og duga allt að 10 sinnum lengur. Mikil þróun hefur orðið í hönnun sparpera og má nú fá perur fyrir allar tegundir perustæða í mismunandi lit frá gulu yfir í hvítt.
 • Umhverfismerkt vara og þjónusta
  Sífellt auðveldara er að nálgast umhverfismerktar vörur, t.d. pappír og hreinlætisvörur, auk þess sem fleiri aðilar bjóða umhverfismerkta þjónustu. Kröfur umhverfismerkja ná líka til flutninga og loftslagsmála.
 • Vistakstur
  Með því að stunda vistakstur minnkar útblástur, umferðaröryggi eykst og eldsneytisnotkun minnkar, sem sparar peninga og dregur úr mengun. Einnig kemur í ljós að slíkur akstur sparar oftar en ekki tíma. Hér má finna upplýsingar um námskeið í vistakstri.
 • Vistakstur
  Hægt er að spara tíunda hvern tank á bílinn með því að tileinka sér vistakstur. Þannig drögum við úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig getur vistakstur aukið umferðaröryggi, dregið úr mengun og minnkað slit á bílum og dekkjum.
 • Visthæfir bílar
  Fyrirtæki geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnkað eldsneytiskostnað með notkun visthæfra bíla, þ.e. bíla sem knúnir eru vistvænum orkugjöfum eða eru með útblástursgildi undir 120 CO2 g/km.
 • Visthæfur bíll
  Það er bæði umhverfisvænt og hagkvæmt að aka visthæfum bíl og ókeypis er í bílastæði í miðborg Reykjavíkur.