Flokkun og minni sóun

Flokkunartafla og verklagsreglur

Hér er hægt að hala niður úrgangsflokkunartöflu og dæmi um verklagsreglur á vinnustöðum (hver og einnig lagar að sínum þörfum). Í töflunni má finna upplýsingar um úrgangsflokkana ásamt merki flokksins. Að auki er reitur þar sem hægt er að fylla inn staðsetningu tunnu og losunaraðila. Hægt er að vinna slíka flokkunartöflu fyrir vinnustaðinn, prenta töfluna út og hengja upp á kaffistofum starfsmanna og í þeim rýmum þar sem úrgangsflokkun fer fram. Ef vinnustaðurinn er tunnur frá Íslenska Gámafélaginu eru flokkunartöflur hér neðst á síðunni, annars gilda flokkunarreglur Sorpu.

Hvers vegna að flokka?

Markmiðið með flokkun úrgangs er að draga úr magni þess úrgangs sem fer til förgunar og hækka um leið það hlutfall sem fer til endurvinnslu og endurnýtingar. Ýmsar náttúruauðlindir t.d. skógar, jarðolía, jarðvegur og málmur eru notaðar til að framleiða þær vörur sem við kaupum. Þessar náttúruauðlindir eru ekki óendanlegar. Þegar notuð vara er endurunnin er henni breytt í nýja vöru án þess að gengið sé á náttúruauðlindir. Úrgangur er því verðmætt hráefni sem með endurvinnslu kemur aftur inn í hringrás framleiðsluferilsins. 

Sem dæmi má nefna að þegar áldós fer á urðunarstað og er grafin þar í jörðu ásamt öðru sorpi er hún ekki lengur verðmætt hráefni, þar sem ekki er hægt að nýta álið í henni í nýja dós. Á norðurslóðum er sérstaklega nauðsynlegt að minnka úrgang sem mest, en niðurbrot er afar hægt við aðstæður eins og á Íslandi.

Neysla er einn helsti áhrifavaldurinn um álag á umhverfið, bæði beint, þ.e. þegar framleiðsluvörur eru notaðar, og óbeint, þ.e. vegna framleiðslu varningsins, flutnings hans og förgunar. Álagið ræðst af fólksfjöldanum og neyslumynstri hans, bæði gagnvart vörum og þjónustu. Öll neysla veldur úrgangi en úrgangur er ekkert annað en afgangshráefni, þ.e. eitthvað sem við getum ekki nýtt eða sem við kjósum að nota ekki. Með flokkun til endurvinnslu sköpum við hráefni í framleiðsluvörur og drögum úr urðun og kostnaði við meðhöndlun úrgangs.

Besta leiðin til að minnka sorpmagnið er að hugsa heildrænt.

 • Það þarf að endurhugsa allt ferlið, t.d. við innkaup (rethink)
 • Afþakka það sem óþarft er, t.d. auglýsingabæklinga (refuse)
 • Draga úr kaupum á vörum (reduce)
 • Endurnota eins mikið og hægt er (reuse)
 • Gera við það sem hægt er og borgar sig að gera við (repair)
 • Endurvinna það sem ekki er hægt að nýta meira (recycle)

Með slíkri heildarsýn er hægt að ná góðum árangri í úrgangsmálum og minnka álag á náttúruauðlindir.

Hvað verður um úrganginn?
Hér að neðan má sjá hvað verður um úrganginn sem er flokkaður í Reykjavík.

Blandaður úrgangur
Blandaður úrgangur frá höfuðborgarsvæðinu er urðaður í Álfsnesi.

Lífrænn eldhúsúrgangur
Lífrænn úrgangur er notaður til moltugerðar. Stefnt er að opnun jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi snemma árs 2020 og þá mun Reykjavíkurborg byrja að safna lífrænum úrgangi frá heimilum.

Skilagjaldsskyldar umbúðir
Plast og ál er selt erlendis. Þar eru nýjar áldósir framleiddar úr þeim notuðu. Úr plastinu er framleitt flísefni sem meðal annars nýtist í fataiðnaði. Glerið er mulið og notað sem fyllingarefni við urðun.

Fernur
Fernur eru sendar til Svíþjóðar þar sem framleiddar eru úr þeim ýmsar umbúðir utan um matvæli, t.d. morgunkorn.

Pappír
Blandaður pappír er sendur til Svíþjóðar þar sem framleiddur er salernis- og eldhúspappír úr honum.

Bylgjupappi
Bylgjupappi fer til Svíþjóðar til endurvinnslu og er meðal annars notaður til framleiðslu á nýjum pappakössum.

Plast
Plast er ýmist nýtt til orkuframleiðslu eða til endurvinnslu bæði hérlendis og erlendis.

Málmur
Málmur er fluttur erlendis til bræðslu og endurvinnslu.

Gler og postulín
Öllu sem fellur í þennan flokk er haldið til haga í Álfsnesi. Til stendur að nýta það sem fyllingarefni undir Sundabrautina þegar hún verður lögð og draga þannig úr jarðraski vegna malarnáms.

Spilliefni
Algengustu spilliefnin frá almenningi eru t.d.

 • Málning
 • Lím
 • Rafhlöður
 • Leysiefni t.d. terpentína
 • Lyf
 • Kvikasilfur í hitamælum
 • Lakk
 • Stíflueyðir
 • Skordýraeitur

Upplýsingar um spilliefni er að finna á vef Umhverfisráðuneytisins í Reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Kertavax
Kertavax fer í endurvinnslu í Kertagerð Sólheima í Grímsnesi. Þar eru unnin úr því ný kerti.

Steikingarfeiti
Fer til eyðingar eða til framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti.

Kælitæki
Kælitæki eru flutt til Danmerkur. Þar eru freon og olía tæmd úr skápunum og þessum efnum komið til eyðingar. Skáparnir sjálfir eru svo teknir í sundur og flokkaðir til endurvinnslu.