Innkaup

Hvað eru vistvæn innkaup?

Vistvæn innkaup má skilgreina með eftirfarandi hætti:

Vistvæn innkaup er að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.

Neysla á vörum og þjónustu hefur áhrif á umhverfi og heilsu, mismikið eftir því hvaða vara eða þjónusta er valin. Við vistvæn innkaup er reynt að meta þessi áhrif og velja þann kost sem er síður skaðlegur. Verð vöru við innkaup er oft aðeins hluti af kostnaði kaupanda á líftíma vörunnar. Við vistvæn innkaup er horft á kostnað yfir allan líftíma vörunnar, þ.e.a.s. innkaup, rekstur, viðhald og förgun. Einn mikilvægasti þáttur í vistvænum innkaupum er að greina vel þörfina á innkaupunum. Ef vara eða þjónusta uppfyllir ekki þarfir, nýtist hún ekki, og er því hráefnum og orku sóað. 

Innkaupareglur Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg hefur sett sér innkaupastefnu og innkaupareglur fyrir kaup á vöru og þjónustu á vegum borgarinnar. Við öll innkaup ber starfsmönnum að fylgja innkaupareglum borgarinnar og taka mið af innkaupastefnunni. Einnig er mikilvægt að innkaupaaðilar fari eftir miðlægum samningum/rammasamningum sem innkaupadeild gerir.

Samkvæmt innkaupastefnu Reykjavíkurborgar er það stefna borgarinnar að við innkaup sé auk kostnaðar tekið tillit til gæða-, umhverfis- og mannréttindasjónarmiða. Innkaupaskrifstofu er skv. innkaupareglunum ætlað að samræma innkaup og gera miðlæga samninga fyrir vörur og þjónustu sem borgin hefur almenn not fyrir. Innkaupadeild hefur vistvæn innkaup að leiðarljósi við þau innkaup en þó ber að hafa í huga að vörur og þjónusta innan rammasamninganna geta verið mis vistvæn. 

Innkaupagreining

Markmiðið með innkaupagreiningu er að fá gott yfirlit yfir helstu vöruflokka sem verið er að kaupa, hvaða birgjar eru stærstir og hvert framboðið er á vörum og þjónustu. Um leið er hagkvæmt að gera þarfagreiningu fyrir stærri innkaup, til að skilgreina þörfina fyrir kaupin og lausnir fyrir vistvænni innkaup. Innkaupagreining veitir yfirsýn yfir innkaupamál og getur leitt til talsverðs sparnaðar og hagræðingu í innkaupum.

Til að fá aðstoð við innkaupagreiningu er hægt að hafa samband við Innkaupadeild Reykjavíkurborgar. Aðstoð við innkaupagreiningu felst í að ráðgefandi starfsmaður Innkaupadeildar fer yfir bókhald viðkomandi sviðs eða stofnunnar og vinnur greiningu sem framsett er í texta og á myndrænan hátt. Innkaupadeild vinnur að gerð innkaupagreiningartóls í Excel sem mun auðvelda mjög allar greiningar varðandi innkaupsmál.

Nánari upplýsingar um innkaupagreiningar má finna hér.

Hvernig stunda á vistvæn innkaup

Grunnur að vistvænum innkaupum er góð greining á innkaupaþörf og þeirri vöru eða þjónustu sem þörf er á. Spyrja þarf spurninga: Er þörf fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu? Hversu mikla vöru eða þjónustu þarf? Getum við dregið úr umbúðamagni með markvissari innkaupastýringu? Getum við farið betur með það sem til er? o.s.frv. Vara eða þjónusta sem nýtist ekki er sóun á fjármagni og hráefnum. Þegar innkaupaþörfin hefur verið greind þarf að meta hvaða vara eða þjónusta er vistvæn og hver ekki.

Hægt er að velta ýmsum spurningum fyrir sér þegar kaupa á inn vöru:

 • Hver er líftímakostnaður vörunnar?
 • Er hún dýr í rekstri, orku- eða viðhaldsfrek?
 • Kallar hún á mikla efnanotkun?
 • Er úrgangsmyndun mikil og því kostnaður við förgun?
 • Hver er ending vörunnar?
 • Hvaðan er varan og þarf að flytja hana langt að?
 • Er hægt að kaupa í stærri einingum umbúðalaust eða býður birginn upp á áfyllingu?

Nánari upplýsingar um vistvæn innkaup má finna inn á www.vinn.is og meðal annars má þar finna nokkur góð ráð sem og handbók um vistvæn opinber innkaup á evrópska efnahagssvæðinu.

Hér má skoða reynslusögur frá Evrópu.

Innkaupadeild Reykjavíkurborgar aðstoðar við greiningu á því hvort innkaup eru stór eða lítil, hægt er að senda fyrirspurn/ábendingar á netfangið utbod@reykjavik.is.

Í stærri kaupum, útboðum, þarf að gæta þess að mismuna ekki eftir framleiðslulöndum vegna ákvæða EES samningsins. Hins vegar leyfum við okkur það í smærri kaupum þar sem umhverfisáhrif flutninga geta verið nokkur.

Smærri innkaup

Við smærri kaup þar sem ekki þarf að framkvæma verðfyrirspurn eða útboð er einfaldast að velja umhverfismerktar vörur. Greint er frá helstu umhverfismerkjum í næsta kafla en þau eru mörg og veita upplýsingar um mismunandi þætti. Innkaupaaðilum ber að fara eftir rammasamningum Reykjavíkurborgar við öll innkaup, stór og smá.

Stærri innkaup

Við stærri innkaup þarf að framkvæma verðfyrirspurnir eða útboð (innkaupareglur). Lágmarksupphæðir sem framkvæma þarf verðfyrirspurnir eða útboð fyrir eru tilgreindar í grein 14 í innkaupareglum borgarinnar. Innkaupadeild, í samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið, veitir aðstoð við greiningu á umhverfisáhrifum innkaupa og veitir ráðgjöf um hvernig gera megi innkaup Reykjavíkurborgar vistvæn.

Við verðfyrirspurnir og útboð er góður undirbúningur mikilvægur. Undirbúa þarf kaupin tímanlega, skilgreina þörfina og hafa gott samráð við notendur vörunnar eða þjónustunnar sem ætlunin er að kaupa. Ef varan eða þjónustan uppfyllir ekki þarfir notenda er fjármunum og umhverfislegum gæðum sóað.

Eftir greiningu á umhverfisáhrifum innkaupanna þarf að setja umhverfisviðmið/-skilyrði í fyrirspurnargögnin. Innkaupaskrifstofa veitir aðstoð og ráðgjöf um umhverfisskilyrði. Stærri einingar geta oft verið hagkvæmari fjárhagslega og umbúðaúrgangur minni. Hins vegar þarf að gæta þess að kaupa hæfilegt magn svo ekki þurfi að farga ónotaðri vöru. 

Frekari upplýsingar um hvaða þætti þarf að skoða fyrir hina ýmsa vöru og þjónustuflokka má finna á vefsíðu um vistvæn innkaup, www.vinn.is. Þar má m.a. finna gátlista fyrir kaup á ýmsum vöru- og þjónustuflokkum.

 

Hvað eru umhverfismerki?

Umhverfisstjórnun / Umhverfisvottun
Umhverfisstjórnun er skipulagt umhverfisstarf sem miðar að því að hafa stjórn á umhverfisáhrifum starfseminnar og vinna markvisst að stöðugum umbótum í umhverfisstarfinu í samræmi við umhverfisstefnu. Umhverfisstjórnunarkerfi er sá hluti heildarstjórnunarkerfisins sem nær yfir stjórnskipulag, áætlanagerð, ábyrgðarskiptingu, starfshætti, verklagsreglur, ferli og aðföng sem nauðsynleg eru til að þróa, koma á, framfylgja, rýna og viðhalda umhverfisstefnunni. Umhverfisstjórnunarkerfi er með öðrum orðum safn lýsinga og leiðarvísa um umhverfisstarf innan fyrirtækis eða stofnunar. Því er ætlað að fella áherslu á umhverfismál inn í alla þætti starfseminnar á kerfisbundinn hátt.

Umhverfisstjórnunarkerfi sem byggt er upp samkvæmt ákveðnum stöðlum getur fengið vottun óháðs aðila. Dæmi um viðurkennda alþjóðlega staðla eru ISO 14001 og EMAS. Vottað umhverfisstjórnunarkerfi er sönnun þess að starfsemi uppfylli tilteknar kröfur um markvissa stjórnun umhverfisþátta og stöðugar umbætur á frammistöðu í umhverfismálum í samræmi við umhverfisstefnu.

Umhverfisvottun er vottun óháðs aðila um að kröfur áreiðanlegra umhverfismerkja eða umhverfisstjórnunarkerfa séu uppfylltar.


Umhverfismerki

Umhverfismerkjum er ætlað að auðvelda neytendum að finna umhverfisvæna vöru og þjónustu. Merkin eiga að tryggja að varan hafi staðist strangar umhverfiskröfur sem geta tekið t.d. til framleiðsluferils, efnainnihalds, notkunar vörunnar, úrgangsmyndunar og niðurbrots, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfismerki getur verið í formi yfirlýsingar, tákns, eða myndar á vöru eða merkingu umbúða, í upplýsingum sem fylgja vörunni, í tæknilegum upplýsingum, í auglýsingum eða opinberri kynningu, o.s.frv. 

Áreiðanleg umhverfismerki eiga það sameiginlegt að þau fela í sér ákveðnar lágmarkskröfur um umhverfisframmistöðu vöru eða þjónustu, og oft einnig um gæði og heilnæmi þeirra. Kröfurnar geta annað hvort náð til alls lífsferils vörunnar frá framleiðslu til förgunar eða til einstakra umhverfisþátta vörunnar t.d. orkunotkunar. Einnig eiga áreiðanleg umhverfismerki það sameiginlegt að óháður aðili hefur vottað að kröfur umhverfismerkisins séu uppfylltar.

Umhverfismerki er trygging neytenda fyrir því að varan eða þjónustan skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta.

Umhverfismerki er trygging neytenda fyrir því að varan eða þjónustan skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta.    

Þrjár gerðir umhverfismerkja
Umhverfismerkjum hefur verið skipt í 3 flokka. Þegar rætt er um umhverfismerki í daglegu tali er yfirleitt átt við gerð 1, en vegna mikils fjölda merkja á markaðnum gætir þó oft tilhneigingar til að rugla saman merkjum af gerð 1 og gerð 2.

  Gerð 1:

  Merki frá óháðum þriðja aðila

  Gerð 2:

  Merki frá vöruframleiðanda

  Gerð 3:

  Umhverfisyfirlýsingar, vottaðar af þriðja aðila

Framleiðendur sækja um merki af þessu tagi til hins óháða aðila, og þurfa að uppfylla tilteknar viðmiðunarkröfur til að fá leyfi til að nota merkið. Viðmiðunarkröfurnar taka til margra þátta, taka mið af vistferli viðkomandi vöru eða þjónustu og eru endurskoðaðar reglulega.

Merkið felur í sér yfirlýsingu framleiðanda um umhverfislegt ágæti á eigin vöru eða þjónustu.

Þessar yfirlýsingar veita magnbundar upplýsingar um tiltekna umhverfisþætti vörunnar, en láta neytendum það eftir að ákveða hvaða vara sé betri en önnur frá umhverfissjónarmiði. Að sama skapi staðfestir vottunin aðeins að upplýsingarnar séu réttar, en felur ekki í sér vísbendingu um umhverfislegt ágæti.

 

Umhverfismerki vöruflokka

Umhverfismerki hafa ýmsa merkingu. Sum merki varða eingöngu umbúðir, önnur vöruna og framleiðslu hennar og enn önnur notkun.

Hér á eftir koma viðmið fyrir vöruflokka sem eru mikilvægir í umhverfislegu tilliti. Huga þarf að þessum viðmiðum hvort sem verið er að kaupa vörur eða þjónustu/framkvæmd sem felur í sér notkun slíkrar vöru. Listinn er ekki tæmandi og starfsmanni heimilt að bæta við umhverfisviðmiðum í útboðs- eða verðfyrirspurnargögn.

Almennar neysluvörur

Neðangreind merki má finna á ýmsum almennum neysluvörum, s.s. almennum heimilisvörum, hreinlætisvörum, byggingarvörum og húsbúnaði, rekstrarvörum o.fl. Merkin eiga það sameiginlegt að uppfylla kröfur staðalsins ISO 14024 (Umhverfismerki af gerð 1) sem felur það m.a. í sér að þau taka tillit til umhverfisþátta á öllum lífsferli viðkomandi vöru eða þjónustu, allt frá vinnslu hráefna til endanlegrar förgunar.

  NAFN

  LÝSING

  MYND

Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Í dag fást vörutegundir merktar Svaninum í um 70 mismunandi vöruflokkum, s.s. hreinsiefni, húsgögn, byggingavörur, rafhlöður og pappír en einnig er hægt að Svansmerkja starfsemi fyrirtækja, s.s. prentþjónustu, hótel og stórmarkaði.

Evrópublómið

Blómið er opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins. Í dag fást vörutegundir merktar Blóminu á evrópska efnahagssvæðinu í um 26 vöruflokkum. Meðal þeirra eru tölvur, jarðvegsbætir, málning og lakk, textílefni, ljósaperur og skór.

Blái engillinn

 

Blái engillinn er opinbert umhverfismerki Þýskalands og eitt elsta umhverfismerki í heimi. Vörur og þjónusta í tæplega 200 vöruflokkum fást merktar með Bláa englinum. Þar á meðal eru allflestar gerðir neysluvara, allt frá pappírsvörum og hreinlætisefnum til húsbúnaðar, gólfefna og tölvu- og skrifstofubúnaðar.

Fálkinn

(Bra Miljöval)

Fálkinn er umhverfismerki sænsku náttúruverndarsamtakanna SNF sem sett hafa umhverfiskröfur fyrir ýmsa vöruflokka, s.s. hreinsivörur, vefnaðarvörur, orkuframleiðslu og samgöngur.

Græna innsiglið (Green Seal)

Græna innsiglið er umhverfismerki sjálfstæðra bandarískra samtaka sem stuðla að framleiðslu, sölu og innkaupum á umhverfisvænni vöru og þjónustu. Allt frá kaffisíum til loftkælikerfa geta fengið umhverfismerkið.

Pappír og prentverk

 • Hér er átt við skrifstofupappír (A4), pappír í kynningarefni (val á pappír hjá prentsmiðju), bréfsefni, prentun nafnspjalda, hreinlætispappír og bréfþurrkur.
 • Umhverfisáhrif þessara vörutegunda tengjast helst framleiðslunni, þ.e vatns- og orkunotkun, úrgangsmyndun og efnanotkun, s.s. klór er notað til bleikingar.
 • Velja skal pappír sem er merktur með viðurkenndu umhverfismerki sem gerir kröfur um að varan sé upprunnin úr nytjaskógum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt og framleidd á þann hátt að hún skaði umhverfið sem minnst. Viðurkennd umhverfismerki fyrir pappír eru t.d Svanurinn (opinbert umhverfismerki Norðurlandanna), Evrópublómið (opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins) og Blái engillinn (opinbert umhverfismerki Þýskalands). Þessi merki eiga það sameiginlegt að taka tillit til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu.
 • Sé ekkert af framangreindum merkjum til staðar má styðjast við FSC/PEFC merkin (Forest Stewardship Council og/eða Programme for the Endorsement of Forest Certification Schemes) en þau eru notuð á timbur og vörur sem unnar eru úr viði, s.s. húsgögn og pappír. Merkin staðfesta að viðurinn sem varan er unnin úr sé úr skógum sem stjórnað er með sjálfbærum hætti. Það tekur hins vegar ekki á öðrum umhverfisþáttum viðkomandi vöru.
 • Þyngd A4 ljósritunarpappírs skal vera 80 g/m² og sýrustig pappírs til gagnageymslu skal vera skv. ISO 9706 staðlinum sem er alþjóðlegur pappírsstaðall fyrir gagnapappír og gefur til kynna að pappírinn sé sýrufrír og með varðveislueiginleika til allt að 200 ára.
 • Þegar óskað er eftir íslensku prentverki er hægt að fara fram á að prentsmiðjur noti jurtaprentliti í stað jarðolíuefna ásamt því að nota umhverfisvottaðan pappír. Einnig er hægt að leggja áherslu á bætta nýtingu á öllum stigum framleiðslunnar til að minnka úrgang og mengun, s.s. í prentlitum, hreinsiefnum og á pappír.

Plast og plastagnir (microplastic)

Þegar talað er um einnota umbúðir er fremst lögð áheyrsla á plast og pappír. Plast er orðið hlutur af okkar daglega lífi og þá sér í lagi einnota plast. Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því umbúðunum er hent um leið og búið er að nota þær. Sem dæmi þá er hver plastpoki notaður að meðaltali í um 25 mínútur.1 

Hráolía er notuð til að framleiða plast, en einnig önnur efni eins og kol, jarðgas, sellulósi og salt. Endingatími plasts er mikill, það er slitsterkt og eyðist ekki heldur brotnar í smærri og smærri hluta í náttúrunni.2  Plast sem ekki fer réttar leiðir til endurvinnslu endar  í náttúrunni og veldur þar miklum skaða á lífríki náttúrunnar. Talið er að aðeins 20% þess plasts sem notað er í heiminum í dag sé endurunnið3 og því spáð að innan skamms verði meira af plasti en fiski í höfum heimsins.

Plastagnir/örplast (e. microplastic/microbeads) eru minni en 5 millimetrar á stærð og er þessum örsmáu plastögnum oft bætt út í ýmsar hreinlætis- og snyrtivörur, s.s. tannkrem og húðskrúbba. Það hættulega við þessar örsmáu agnir er að þær fara oftar en ekki beina leið útí sjó. Talið er að 93-236 þúsund tonn af plastögnun hafi verið fljótandi í hafinu árið 2014.4 Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á hættuleg áhrif plastagna á lífríki náttúrunnar, en örplast á sér greiða leið á diskinn okkar í gegnum fæðukeðjuna.

Með því að ná í þetta APP er hægt að fylgjast með því hvort varan sem þú kaupir innihaldi plastagnir eða ekki.

Plast er oftast merkt með endurvinnslutákni sem gefur til kynna að plastefnið sé endurvinnanlegt. Endurvinnslutáknið er lítill þríhyrningur, gjarnan á botni plastílátsins, sem inniheldur númer frá 1 upp í 7, ásamt bókstöfum fyrir neðan merkið. Þessi tákn segja til um hvaða efnasambönd eru í plastinu.

Raftæki

 • Hér er um að ræða allar vörur sem nota rafmagn, s.s. perur, tölvubúnaður, skrifstofutæki eða raftæki á verkstæðum og kaffistofum.
 • Umhverfisáhrif þessara vörutegunda felst í orkunotkuninni meðan á notkun tækisins stendur, svo og hita, hávaða og ósonmengun, auk förgunar þegar varan er búin að skila sínu.
 • Velja ætti búnað sem eyðir sem minnstri raforku og er merktur með viðurkenndum umhverfismerkjum ef hægt er, svo sem Svaninum, Bláa englinum, Evrópublóminu eða Fálkanum (umhverfismerki sænsku náttúruverndarsamtakanna SNF). Þessi merki gera kröfur til vörunnar um orkunotkun, hávaða, þungmálmainnihald o.m.fl.
   
 • Sé ekkert af framangreindum merkjum til staðar, má styðjast við önnur merki sem sérstaklega eru ætluð rafmagnsvörum til að tryggja lága rafmagnsnotkun, s.s. TCO merkið (sænskt merki sem gerir kröfur um gæði og góða umhverfisframmistöðu, m.a. orkunýtingu rafmagns- og skrifstofutækja ásamt kröfum til annarra umhverfisþátta og vinnuumhverfis) og Energy Star (bandarískt merki sem gerir kröfur um orkunýtingu rafmagnstækja, s.s. tölvubúnaðar og hvítvara).
 • Þegar keypt eru önnur raftæki en tölvubúnaður og skrifstofuvörur ætti að velja vöru í sem lægstum orkuflokki skv. orkumerkingum Evrópusambandsins.
 • Við kaup á ljósritunarvél/prentara skal velja tæki sem býður upp á: a) að hægt sé að ljósrita/prenta báðum megin á blaðið. b) að hægt sé að nota enduráfyllanleg tóner-hylki. c) að til séu upplýsingar um hávaða frá vélinni og ósonmengun frá tækinu.
 • Við kaup á ljósaperum skal velja sparperur í stað glórpera og/eða perur í sem lægstum orkuflokki skv. orkumerkingum Evrópusambandsins.

Ýmsar rafmagnsvörur bera umhverfismerki á borð við Svaninn, Bláa engilinn o.fl. en auk þess eru ýmis merki sem sérstaklega eru ætluð rafmagnsvörum. Þau gera kröfur um orkusparnað og e.t.v. fleiri þætti en taka ekki til alls lífsferilsins eins og hin eiginlegu umhverfismerki (umhverfismerki að gerð 1).

NAFN

LÝSING

MYND

Energy Star

Energy Star merkið er til marks um orkunýtingu rafmagnstækja, s.s. tölvubúnaðar og hvítvara. Merkið er rekið af Bandarísku umhverfisstofnuninni (US EPA) og Orkustofnun Bandaríkjanna (DoE).

Evrópska orkumerkið

Evrópska orkumerkið metur orkunýtni raftækja, frá mestri orkunýtni (A++) til minnstrar (G). Samkvæmt evrópskum lögum á merkið að vera á öllum ísskápum, frystiskápum- og kistum, þurrkurum, þvottavélum, uppþvottavélum, ljósaperupakkningum o.fl.

TCO merkið

TCO merkið er til marks um gæði og góða umhverfisframmistöðu, m.a. orkunýtingu rafmagns- og skrifstofutækja, en kröfurnar ná taka einnig til annarra umhverfisþátta, góðs vinnuumhverfis o.fl.

Matvæli

Neðangreind merki eru til marks um að matvara sé lífrænt ræktuð. Kröfurnar á bak við merkin byggja á alþjóðlegum stöðlum IFOAM sem eru alþjóðasamtök framleiðenda og þjónustuaðila á sviði lífrænnar framleiðslu. Auk þess byggja allar kröfurnar á sömu Evrópureglugerðinni og eru því samræmdar um alla álfuna. Auk matvæla geta merkin vottað lífrænan uppruna annarrar vöru sem upprunnin er í lífríkinu, svo sem snyrtivöru, vefnaðarvöru, áburðar o.fl.

NAFN

LÝSING

MYND

Tún vottun

Vottunarstofan Tún ehf. vottar að matvörur séu framleiddar með lífrænum aðferðum í samræmi við íslenskar og evrópskar reglugerðir um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Ø-merkið

Ø-merkið er opinbert merki fyrir lífræna ræktun í Danmörku.

KRAV merkið

KRAV merkið er opinbert merki fyrir lífræna ræktun matvæla í Svíþjóð en hefur einnig þróað staðla fyrir m.a. sjálfbærar visthæfar fiskveiðar.

BIO merkið

BIO merkið (Bio-Siegel) er opinbert merki Þýskalands fyrir lífræna ræktun. Til að matvara fái að nota BIO-merkið þarf hún að innihalda a.m.k. 95% lífrænt ræktuð matvæli.

EKO merkið

EKO er hollenskt merki um vottun lífrænnar framleiðslu samkvæmt evrópskum reglugerðum. Algengt í íslenskum heilsuverslunum.

Trévörur

Ýmsar vörur sem framleiddar eru úr viði bera umhverfismerki á borð við Svaninn, Bláa engilinn o.fl. FSC-merkið felur í sér sérstaka vottun fyrir vörur af þessu tagi, en það tekur ekki til alls lífsferilsins eins og eiginlegu umhverfismerki (gerð 1).

NAFN

LÝSING

MYND

Forest Stewardship Council

FSC-merkið er notað á timbur og vörur sem unnar eru úr viði, s.s. húsgögn og pappír. Merkið er til marks um að viðurinn sem varan er unnin úr sé upprunnin úr skógum sem stjórnað er með sjálfbærum hætti.

Programme for the Endorsement of Forest Certification Schemes

PEFC-merkið er svipað FSC-merkinu og staðfestir að hráefnið eigi uppruna í sjálfbærri skógrækt í samræmi við reglur þessara stofnana, sem í aðalatriðum gera strangar kröfur til uppruna og rekjanleika efnisins.

Efnavara

 • Hér er um að ræða allar efnavörur sem eru merkingarskyldar skv. reglugerð um flokkun og merkingu eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, t.d. málningarvörur, hreinlætis- og ræstiefni, smurefni, eiturefni og prenthylki.
 • Umhverfisáhrif þessa vöruflokks eru tengd skaðlegum áhrifum á lífverur og fólk. Lágmarka skal notkun eiturefna og hættulegra efna eins og kostur er.
 • Leitast skal við að velja efni með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. Svaninum eða Evrópublóminu. Forðast ber að kaupa efni sem merkt eru Tx, T, Xn og N nema í undantekningartilvikum þegar ekkert annað efni kemur til greina.

 • Kalla skal eftir öryggisblöðum fyrir öll merkingarskyld efni. Ekki skal nota efni sem eru á SIN Lista Efnastofnunar Evrópu. Þessi listi inniheldur efni sem eru bönnuð eða ætti að forðast. Upplýsingar um hættumerki er að finna á síðu Umhverfisstofunar.

 • Prenthylki með dufti fyrir laserprentara, ljósritunarvélar og faxtæki þarf að farga sérstaklega.
 • Umhverfisáhrif vöruflokksins tengjast förgun prenthylkja sem flokkast sem spilliefni að notkun lokinni.
 • Leitast skal við að nota prenthylki sem hægt er að endurhlaða og þannig margnota sama prenthylkið.

Hreinlætis- og ræstiefni

 • Hér er um að ræða hreinlætis og ræstiefni sem notuð eru til þrifa á húsnæði, bifreiðum, tækjum, veggjakroti o.fl.
 • Umhverfisáhrif vöruflokksins eru tengd innihaldsefnum sem geta verið hættuleg umhverfinu svo sem vatnalífverum eða heilsu manna. Forðast ber að nota efni sem merkt eru með T, Tx, N eða Xn og efni sem eru mjög rokgjörn (VOC>20%) eða ofnæmisvaldandi. Sjá á síðu Umhverfisstofnunar.
 • Velja ætti vörur sem merktar eru með viðurkenndum umhverfismerkjum s.s. Svaninum, Evrópublóminu, Bláa englinum eða Fálkanum. Þessi umhverfismerki gera strangar umhverfislegar kröfur varðandi innihaldsefni. Þau banna notkun innihaldsefna sem eru hættuleg vatnalífverum og brotna seint niður í umhverfinu (LAS, APEO og NPEO), efna sem mýkja vatnið og geta verið hættuleg vatnalífverum (fosfónöt, EDTA, NTA), bleikiefna eða virkra klórefna.

Önnur merki

NAFN

LÝSING

MYND

Réttlætismerkið (Fair Trade)

Réttlætismerkið staðfestir að viðkomandi vara uppfyllir kröfur alþjóðlegu FLO samtakanna (Fairtrade Labelling Organisations International). Réttlætismerki er ekki umhverfismerki, en réttlætismerki fjalla um félagslega þætti í viðskiptum með vörur sem eiga uppruna sinn í þróunarlöndunum og ýta þannig undir sjálfbæra þróun samfélagsins.

Grænfáninn

Grænfáninn er umhverfismerki fyrir skóla. Allir skólar geta sótt um Grænfánann og fá þá að taka þátt í verkefnum sem miða að því að minnka umhverfisáhrif skólans ásamt því að efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál.

Bláfáninn

Bláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis hafna og baðstranda. Bláfánann hljóta þeir einir sem leggja sig fram um að bæta gæði og þjónustu stranda og smábátahafna og stuðla að verndun umhverfis. Bláfáninn er tákn um að umhverfismál, öryggismál og umhverfisfræðslumál eru í hávegum höfð hjá handhöfum fánans.

Bifreiðar

 • Hér er um að ræða bifreiðar á leigu eða í eigu vinnustaðarins. Einnig leigu- og sendibíla sem vinnustaðurinn leigir til þjónustu og bifreiðar og jarðvinnuvélar verktaka og þjónustuaðila sem sinna verkum fyrir vinnustaðinn.
 • Umhverfisáhrif vöruflokksins tengjast einna helst brennslu jarðefnaeldsneytis sem myndar gróðurhúsalofttegundina koltvísýring (CO2), svifryksmengun og jarðvegsmengun vegna bilana í bifreiðum.
 • Leitast skal við að velja bifreiðar sem nýta annað eldsneyti en jarðefnaeldsneyti, s.s. rafmagn eða metangas frá urðunarstað Sorpu.
 • Leitast skal við að velja sem sparneytnasta bifreið sem hentar viðkomandi verkefni. Á heimasíðu Orkuseturs má finna upplýsingar um eldsneytisnotkun og útblástur koltvísýrings (CO2).
 • Gera skal kröfu varðandi nagladekkjanotkun með það að markmiði að lágmarka hana eins og kostur er. Bílar og vélar vinnustaðarins og þeirra sem sinna verkefnum fyrir vinnustaðinn skulu hafa staðist bifreiðaskoðun eða aðrar lögbundnar vélaskoðanir og uppfylla ákvæði laga um gerð og búnað ökutækja (bifreiðar).

Timbur

 • Hér er um að ræða timbur sem notað er t.d. í girðingar, pallagerð eða aðra smíðavinnu hjá borginni.
 • Umhverfisáhrif af gagnvörðu timbri eru m.a. tengd fúavörn (sæfiefnablanda, eiturblanda) sem viðurinn er mettaður með til að koma í veg fyrir skemmdir. Fúavörnin getur innihaldið skaðleg eiturefni sem hafa áhrif á lífverur og umhverfi.
 • Leitast skal við að velja timbur sem framleitt er með sjálfbærri nýtingu skóga (FSC/ PEFC merkin) sé þess kostur og timbur með viðarvörn sem inniheldur ekki þungmálma eða önnur skaðleg efni. Þar sem hægt er á að nota timbur án fúavarnar skal velja óvarið timbur.

Ýmsar umbúðamerkingar

Eftirfarandi merki eru algengar umbúðamerkingar. Þessar merkingar eru EKKI umhverfismerki. Þeim er hins vegar oft ruglað saman við umhverfismerki og því ástæða til að útskýra nánar hvað þau þýða.

Varnaðarmerki

Almennt má segja að eiturefni og hættuleg efni séu þau efni sem eru merkt með varnaðarmerkjum skv. rg. 236/1990. Þetta eru svört merki á appelsínugulum grunni eins og birt eru hér til hliðar. Einstaka hættuleg efni geta þó eingöngu verið merkt með varúðar- og/eða hættusetningu

m t.d. „eldfimt“ eða „geymið þar sem börn ná ekki til“.

Eiturefni og hættuleg efni eru skilgreind sem slík vegna þess að flest þeirra hafa skaðleg áhrif á lífverur og fólk hvar sem þau sleppa í einhverju magni út í umhverfið. Draga skal úr notkun þessara efna eins og kostur er. Þessum efnum ber ávalt að farga sem spilliefnum verði þau ekki nýtt. 

Hér fyrir neðan má sjá varnaðarmerki á eiturefnum og hættulegum efnum.  

 

 

 

 

 

 

 

Upplýsingar um hættumerki er að finna á síðu Umhverfisstofunar.

Endurvinnslumerkið

Endurvinnslumerkið er alþjóðlegt. Það táknar að umbúðirnar séu endurvinnsluhæfar eða séu a.m.k. að hluta til úr endurunnum efnum. Merkið gefur enga tryggingu fyrir því að sjálf varan sé endurvinnanleg eða að nota megi hana aftur.

Plastmerki

Plast er oftast merkt með endurvinnslutákni sem gefur til kynna að plastefnið sé endurvinnanlegt. Endurvinnslutáknið er lítill þríhyrningur, gjarnan á botni plastílátsins, sem inniheldur númer frá 1 upp í 7, ásamt bókstöfum fyrir neðan merkið. Þessi tákn segja til um hvaða efnasambönd eru í plastinu. 

 

 

 

Græni punkturinn

Græni punkturinn er þýskt endurvinnslumerki. Þetta merki segir ekki til um hvort varan hafi áhrif á umhverfið. Græni punkturinn þýðir að umbúðir viðkomandi vöru séu endurvinnanlegar og að búið sé að reikna endurvinnslugjald umbúða inn í verð vörunnar. Þetta merki er ekki notað á vörur sem framleiddar eru á Norðurlöndum.

Rafhlöður

Hér til hliðar má sjá merkingu á rafhlöðum sem safna skal sérstaklega og aðgreina þannig frá sorpi. Undir merkinu er tilgreind tegund rafhlöðu: Hg (kvikasilfur), Cd (kadmíum) eða Pb (blý).