Spurningar og svör

Spurningar og svör um Grænu skrefin

  • Hvað felst í því að taka þátt í Grænum skrefum?

    Grænu skrefin er umhverfisstjórnunarkerfi og því er ætlað að gera rekstur borgarinnar, allt frá smæstu einingum upp í þær stærstu, vistvænni og gera vinnuumhverfi starfsfólks sjálfbærara, heilnæmara og jákvæðara. Grænu skrefin eru fjögur og innan hvers skrefs eru 30-40 aðgerðir sem vinnustaðurinn innleiðir hjá sér smátt og smátt og hefur til þess eitt ár, en það má ljúka því á skemmri tíma. Þegar búið er að ljúka fyrsta skrefinu fær vinnustaðurinn viðurkenningu og hefst svo handa við að innleiða skref 2 og þannig koll af kolli. Aðgerðirnar í fyrsta skrefinu eru einfaldar og auðvelt er að hrinda þeim í framkvæmd. Jafnvel er það svo að margir vinnustaðir geta nú þegar hakað við meira en helming aðgerða í fyrsta skrefinu vegna þess að umhverfisstarf þeirra er komið mjög langt á veg.

  • Hverjir eiga að skrá sig í Grænu skrefin?

    Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar er fyrir allar starfseiningar borgarinnar og ef þinn vinnustaður heyrir undir rekstur borgarinnar þá á hann að skrá sig. Þátttaka í Grænum skrefum er öllum að kostnaðarlausu.

  • Hvernig fer skráningin fram?

    Skráning fer fram í gegnum heimasíðu Grænna skrefa, nánar tiltekið hér. Þar þarf að skrifa nafn vinnustaðar, fjölda starfsmanna og nafn og netfang tengiliðs. Þegar skráning hefur Grænum skrefum fær tengiliðurinn sendar frekari leiðbeiningar sem við á.

  • Á tengiliðurinn að sjá um þetta alfarið og fær hann þá greitt fyrir það aukalega?

    Við viljum að vinnan við Grænu skrefin sé samvinnuverkefni á vinnustaðnum. Allt starfsfólk á að taka þátt eða vera meðvitað um hvað stendur til. En best er að mynda 2-5 manna teymi eftir stærð vinnustaðar sem stýrir innleiðingunni á Grænu skrefunum í samráði við stjórnendur og allt starfsfólk. Velja skal einn aðila sem er þá tengiliður teymisins við Grænu skrefin og tengiliðurinn tekur á móti tilkynningum og fréttabréfum frá Grænum skrefum. En það er ekki ætlast til þess að öll vinnan sé á herðum eins aðila. Þetta er teymisvinna sem ekki er greitt aukalega fyrir.

  • Fer mikil vinna í að innleiða Grænu skrefin?

    Mikið og gott umhverfisstarf fer nú þegar fram á vinnustöðum borgarinnar svo að margir vinnustaðir eru komnir langt á leið með að uppfylla öll skilyrðin í skrefi 1. Þá er eftirleikurinn auðveldari. En þetta er ekki bara að haka í box og líta svo á að verkinu sé lokið. Þjóðfélagið allt stefnir nú á að minnka sitt kolefnisspor og borgin stefnir á kolefnishlutleysi árið 2040. Við þurfum að efla okkar umhverfisvitund og gera þær breytingar sem þarf á rekstrarumhverfi og starfi okkar sem stýrir okkur í þessa átt. Grænu skrefin eru hjálpartæki okkar til þess. Vinnan við Grænu skrefin þarf að komast inn í vinnustaðamenninguna og verða hluti af daglegu lífi okkar á vinnustaðnum. Þetta er sífelluverkefni en ekki tímabundið átak.

  • Hvað er það sem maður á helst að gera?

    Aðgerðirnar innan hvers skrefs skiptast í sjö umhverfisþætti eins og til dæmis Rafmagn og húshitun, Flokkun og minni sóun, Samgöngur, Viðburðir og fundir, Innkaup og Mötuneyti og innan hvers flokks eru yfirleitt 3-5 aðgerðir sem snúa að þessum þáttum. En síðan er það flokkurinn Miðlun og stjórnun og innan hans eru aðgerðir eins og að halda starfsmannafund, bjóða starfsfólki að koma með tillögur að úrbótum, senda áminningar til starfsfólks og upplýsa það og síðan hvetja starfsfólk til að fylgjast með fréttum af Grænum skrefum o.þ.h. Þannig ættu allir að vita hvað er verið að vinna að og gott er að leyfa gestum einnig að fylgjast með því, kannski með skiltum eða veggspjöldum (t.d. Hér vinnum við að Grænum skrefum).

  • Hvað svo þegar við teljum okkur hafa lokið við aðgerðir í einu skrefi?

    Þegar búið er að haka við a.m.k. 90% allra aðgerða í einu skrefi er vinnuskjalið sent útfyllt til verkefnisstjóra Grænna skrefa og um leið er beðið um úttekt. Aðilar í starfshópi Grænna skrefa koma á vinnustaðinn og taka út vinnuna og meta hana síðan áður en dagsetning er ákveðin fyrir afhendingu viðurkenningaskjals. Skemmtilegast er að afhending viðurkenningarinnar fari fram á starfsmannafundi eða kaffisamsæti þar sem fleiri starfsmenn eru viðstaddir. Nánari upplýsingar hér.

  • Hver er ávinningurinn fyrir minn vinnustað?

    Ávinningurinn af þátttöku í Grænu skrefunum er margþættur en þetta má helst telja:

    Ný þekking / betri vitund um það sem tengist umhverfismálum.

    Meiri sparnaður / betri stýring aðfanga / markvissari innkaup.

    Bætt ímynd / ánægðara starfsfólk / meiri samheldni

    Samfélagsleg ábyrgð / umhverfisvænni starfsemi

Umhverfis- og skipulagssvið
Borgartúni 12
-14
Hafið samband